Karfan er tóm.
Verklagsreglur Ferro Zink ehf. um uppljóstrun
1. Tilgangur
Reglurnar miða að því að tryggja að starfsfólk Ferro Zink ehf. geti í góðri trú greint frá lögbrotum eða annarri ámælisverðri háttsemi í starfsemi félagsins, án þess að eiga á hættu neikvæðar afleiðingar. Reglurnar eru settar á grundvelli laga nr. 40/2020 um vernd uppljóstrara.
2. Hverjir falla undir reglurnar
Reglurnar gilda um alla starfsmenn Ferro Zink ehf., stjórnendur, stjórnarmenn, verktaka, ráðgjafa og aðra sem koma að starfsemi félagsins.
3. Hvað telst uppljóstrun
Uppljóstrun felur í sér tilkynningu í góðri trú um:
- Lögbrot eða grun um lögbrot.
- Alvarlega eða ámælisverða háttsemi sem getur haft áhrif á starfsemi félagsins, starfsumhverfi, öryggi, heilsu, eða hagsmuni almennings.
4. Innri uppljóstrun
Starfsmenn skulu í fyrstu reyna að tilkynna innan fyrirtækisins. Tilkynningar má senda:
- Til næsta yfirmanns.
- Til fjármálastjóra.
- Til framkvæmdastjóra.
- Með tölvupósti á sérstakt netfang: uppljostrun@ferrozink.is.
- Með bréfi merkt Trúnaðarmál – uppljóstrun, sent til skrifstofu félagsins.
Viðtakandi tilkynningar skal staðfesta móttöku innan 7 daga og upplýsa um framgang máls innan 3 mánaða.
5. Ytri uppljóstrun
Ef uppljóstrari telur að ekki sé unnt að treysta innri úrvinnslu eða um sé að ræða alvarlegt mál sem varðar almannahagsmuni, er heimilt að leita beint til viðeigandi eftirlitsaðila, s.s. Vinnueftirlitsins eða lögreglu.
6. Opinber uppljóstrun
Bein opinber uppljóstrun (t.d. til fjölmiðla) er aðeins vernduð ef:
- Innri og ytri leiðir hafa verið reyndar án árangurs, eða
- Um er að ræða brýna almannahagsmuni, svo sem öryggi, heilsu eða umhverfi.
7. Vernd uppljóstrara
- Uppljóstrari sem lætur í té upplýsingar í góðri trú nýtur verndar samkvæmt lögum.
- Ferro Zink ehf. leggur áherslu á að engin mismunun, ámæli eða aðgerðir gegn uppljóstrara verði liðin.
- Þagnarskylda er skilyrðislaus nema uppljóstrari gefi samþykki til annars.
8. Meðferð uppljóstrana
- Allar tilkynningar verða meðhöndlaðar í trúnaði og samkvæmt persónuverndarlögum.
- Niðurstöður rannsóknar verða kynntar uppljóstrara, eftir því sem við verður komið.
- Gögnum verður aðeins miðlað til þeirra sem nauðsynlegt er vegna málsins.
9. Endurskoðun
Reglurnar skulu endurskoðaðar að lágmarki á þriggja ára fresti, eða oftar ef nauðsyn krefur.